Tollamál og Brexit
Að miðnætti 31. desember 2020 lýkur aðlögunartímabili Bretlands gagnvart Evrópusambandinu og yfirgefur Bretland samhliða Evrópska efnahagssvæðið. Við lok aðlögunartímabils falla úr gildi ákvæði EES-samningsins gagnvart Bretlandi. Það felur í sér að Bretland fær stöðu þriðjaríkis, t.d. á sviði samræmdra heilbrigðisreglna og tæknilegra staðla.
Þann 1. janúar 2021 tekur gildi sérstakur bráðabirgðasamningur milli Íslands, Noregs og Bretlands og mun samningurinn gilda þar til ríkin hafa náð saman um og fullgilt fríverslunarsamning. Bráðabirgðasamningurinn felur í sér að breskar upprunavörur halda sömu tollkjörum og verða í gildi gagnvart aðildarríkjum ESB þann 31. desember 2020. Tollkvótar sem Ísland og Evrópusambandið hafa samið um munu ekki gilda um breskar upprunavörur. Hins vegar hafa Ísland, Noregur og Bretland samið um sérstaka tollkvóta. Sjá nánari upplýsingar um tollkvóta í viðaukum við samninginn.
Athygli inn- og útflytjenda er vakin á því að þó svo að tollkjör haldist óbreytt gagnvart Bretlandi þurfa upprunavörur að uppfylla ýmis formsatriði til að njóta fríðinda. Má hér nefna reglu um uppruna, uppsöfnun uppruna, aðvinnslureglur og beinan flutning. Reikna má með að reglan um beinan flutning muni hafa mest áhrif á íslenska út- og innflytjendur. Með reglunni er átt við að vörusendingar skulu fluttar með beinum hætti milli samningsaðila og mega því ekki hafa fengið tollafgreiðslu inn í ríki sem ekki er aðili að samningnum. Það er hins vegar í lagi að vörusending sé í transit tollmeðferð.
Upprunasönnun
Með bráðabirgðasamningnum munu gilda sömu upprunasannanir gagnvart Bretlandi og giltu fyrir brotthvarf þess af EES-svæðinu. Hér er átt við EUR.1 skírteini, EUR-MED skírteini, áritanir viðurkenndra útflytjanda á vörureikninga og áritanir útflytjenda á reikninga vegna sendinga að verðmæti 6.000 EUR eða lægri. Vísa þarf hins vegar eftir atvikum sérstaklega í bráðabirgðasamninginn, t.d. í reit 2 á EUR.1 skírteini. Bráðabirgðasamningurinn fær tilvísunina YQ í tollakerfinu, sbr. reitur 33 í E1 36 í SAD.
Tekið skal fram að viðurkenndir íslenskir, norskir og breskir útflytjendur þurfa ekki að sækja sérstaklega um nýja viðurkenningu. Nálgast má yfirlit yfir íslenska viðurkennda útflytjendur hér. Útflytjendum er hins vegar bent sérstaklega á að skoða gaumgæfilega yfirlýsingu birgja (e. Suppliers Declarations) sem nálgast má í viðauka A og B við samninginn. Sjá nánari skilyrði um upprunasannanir í viðauka IV við samninginn og leiðbeiningum embættisins.
Uppsöfnunarreglur bráðabirgðasamningsins byggja á sömu reglum og bókun 4 við EES-samninginn og samsvarandi reglum sem falla undir PEM uppsöfnun. Á þessum tímapunkti hefur Bretland ekki gerst aðili að samningnum um PEM uppsöfnun. Auk þess sem Bretland og ESB hafa ekki náð saman um framtíðarsamning. Þessi atriði geta haft áhrif á réttindi til uppsöfnunar uppruna.
Vara í flutningi eða á geymslusvæði fyrir gildistöku samningsins
Heimilt er að gefa út upprunasönnun fyrir vörur sem lagðar voru af stað úr erlendri höfn á leið til landsins fyrir lok aðlögunartímabils Bretlands gagnvart ESB, vörusending í transit-tollmeðferð eða vörusending staðsett á geymslusvæði hér á landi fyrir ótollafgreiddar vörur. Heimilt er að gefa út upprunasönnun fyrir slíkar vörusendingar í allt að tólf mánuði frá gildistöku samningsins. Taka skal fram við útgáfu upprunasönnunar að það sé gefið út eftir á „issued retrospectively“. Sjá nánari skilyrði skv. 39. gr. samningsins.
Innflutningstakmarkanir
Brotthvarf Bretlands af EES-svæðinu mun hafa áhrif á frjálst flæði vöruflutninga þar sem ekki verður lengur til staðar sjálfkrafa viðurkenning á að vörur uppfylli tæknilegar reglur og staðla. Samræmdar heilbrigðisreglur á sviði lyfjamála, matvæla, dýraafurða og plöntuheilbrigðis munu falla úr gildi og mun Bretland fá stöðu þriðjaríkis gagnvart leyfisskyldum vörum og vottunarkerfum. Sjá nánari upplýsingar um innflutningstakmarkanir og skilyrði fyrir innflutningi á vörum hjá samstarfsstofnunum.
Útflutningstakmarkanir
Hugsanlegt er að íslenskar vörur sem áður voru í frjálsu flæði verði leyfisskyldar við innflutning til Bretlands. Embættið biðlar til útflytjanda að kanna stöðu sína hjá breskum yfirvöldum. Fréttin verður uppfærð.
Nálgast má frekari upplýsingar um Brexit, bráðabirgðasamninginn og viðræður við Bretland um fríverslunarsamning á heimasíðu Utanríkisráðuneytisins.
Frétt uppfærð 14.01 2021
Til baka