Virðisaukaskattur felldur niður af léttu bifhjóli eða reiðhjóli sem knúið er rafmagni og reiðhjóli með stig – eða sveifarbúnaði ásamt öðrum tegundum reiðhjóla.

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim
Skip speglast í hafinu

Virðisaukaskattur felldur niður af léttu bifhjóli eða reiðhjóli sem knúið er rafmagni og reiðhjóli með stig – eða sveifarbúnaði ásamt öðrum tegundum reiðhjóla.

19.05.2020

Með setningu bráðabirgðaákvæðis XXVI við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. lög nr. 154/2019, var tollyfirvöldum gert heimilt við tollafgreiðslu að fella niður virðisaukaskatt upp að ákveðnu hámarki af léttum bifhjólum og reiðhjólum sem uppfylla ákveðin skilyrði. 

Tegundir hjóla sem hljóta að hámarki 96.000 kr. niðurfellingu:

A) létt bifhjól eða reiðhjól sem knúið er rafmagni hljóta niðurfellingu að hámarki 96.000 kr.

Sem dæmi um hjól sem falla undir þennan flokk:

1. Rafmagnsreiðhjól (rafhjól) með rafmagnsmótor og mótorinn slær út þegar hjólið er komið á 25 km/klst. hraða. Þessi hjól þurfa að hafa CE-merkingu en eru óskráningarskyld.

2. Rafmagnsvespa (rafmagnsskutla) sem er ekki hönnuð til hraðari aksturs en 25 km á klst. Flokkast sem bifhjól í flokki I og er skráningarskyld hjá Samgöngustofu.

3. Rafmagnshlaupahjól þ.e.a.s. rafknúið hlaupahjól sem er hannað til hraðari aksturs en 25 km á klst. Skráningarskylt hjá Samgöngustofu og flokkast sem létt bifhjól í flokki II.

Tegundir hjóla sem hljóta 48.000 kr. niðurfellingu:

B) Reiðhjól með stig – eða sveifarbúnaði og aðrar tegundir reiðhjóla að hámarki 48.000 kr.  

Sem dæmi um hjól sem falla undir þennan flokk:  

1. Hefðbundin reiðhjól þ.e. hjól án vélar sem búin eru fótstigi eins og t.a.m borgarhjól (hybrid), barnahjól, götuhjól (racer), Gravel (cylocross) o.fl. Þessi hjól þurfa að hafa CE-merkingu en eru óskráningarskyld.

2. Rafmagnshlaupahjól þ.e. vélknúin hlaupahjól án sveifarmótors sem eru hönnuð til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst. og tilheyra flokki reiðhjóla, sbr. c-lið 30. tl. 3. greinar umferðalaga nr. 77/2019. Þurfa CE-merkingu en eru óskráningarskyld.

Dæmi um hjól/tæki sem ekki hljóta niðurfellingu:

Rafskutla fyrir fólk sem á erfitt með gang (mobility Scooter), venjulegt hlaupahjól („fótknúin áfram“ ekki rafmagns), barnaþríhjól, sparkhjól (engin fótstig).

Niðurfellingin nær ekki yfir varahluti:

Það athugast að heimildin til niðurfellingar virðisaukaskatts nær ekki yfir innflutning á varahlutum t.a.m. dekkjum, gjörðum, hjólastellum, rafgeymum o.s.frv.

Skilyrði sem hjólin þurfa að uppfylla til að hægt sé að fá virðisaukaskatt felldan niður af þeim við tollafgreiðslu:

Þessar tegundir hjóla þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að innflytjandi eigi rétt á niðurfellingu virðisaukaskatts við tollafgreiðslu hjólanna en þeim skilyrðum verður gerð skil hér að neðan.

Skilyrði sem hjól þurfa að uppfylla til að geta hlotið að hámarki 96.000 kr. niðurfellingu:

A) Létt bifhjól er skilgreint í umferðalögum sem vélknúið ökutæki á tveimur, þremur eða fjórum hjólum sem er ekki hannað til hraðari aksturs en 45 km á klst. Létt bifhjól greinast svo í létt bifhjól í flokki I sem er bifhjól sem ekki er hannað til hraðari aksturs en 25 km á klst. og létt bifhjól í flokki II sem er hannað til hraðari aksturs en 25 km á klst.

Í bráðabirgðaákvæði XXVI kemur fram að létt bifhjól eða reiðhjól þurfa annaðhvort að geta fallið undir b-lið 28. tölul. eða b-lið 30 tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og vörulið 8711 í tollskrá til að standast skilyrði á niðurfellingu virðisaukaskatts við tollafgreiðslu.

●  Til að hjólið geti fallið undir b-lið 28. töluliðar, þá má samfellt hámarksafl þess ekki vera yfir 4 kw. sé hjólið búið rafhreyfli.

●  Til að hjólið geti fallið undir b-lið 30. töluliðar,  þá þarf það að vera með stig – eða sveifarbúnaði, búið rafknúinni hjálparvél þar sem samfellt hámarksafl er allt að 0,25 kW og afköstin minnka smám saman og stöðvast alveg þegar hjólið hefur náð hraðanum 25 km á klst. eða fyrr ef hjólreiðamaðurinn hættir að stíga hjólið.

Skilyrði sem hjól þurfa að uppfylla til að geta hlotið að hámarki 48.000 kr. niðurfellingu:

B) Heimild til niðurfellingar virðisaukaskatts við innflutning nær einnig til reiðhjóla með stig – eða sveifarbúnaði og til annarra tegunda reiðhjóla að hámarki 48.000 kr.

Hjólin þurfa að falla undir a-lið eða c-lið 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðalaga nr. 77/2019, og vöruliði 8711 eða 8712 í tollskrá til að standast skilyrði niðurfellingar á virðisaukaskatti við tollafgreiðslu hjólanna.

●  Til að hjólið geti fallið undir a-lið 30. töluliðar, þá þarf hjólið að vera knúið áfram með stig - eða sveifarbúnaði.

●  Til að hjólið geti fallið undir c-lið 30. töluliðar,  þá þarf að vera um að ræða annað lítið vélknúið ökutæki sem ekki telst til létts bifhjóls og er hannað til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst. Undir þessa skilgreiningu fellur m.a. vélknúið hlaupahjól og tvíhjóla ökutæki á einum öxli. Slíkum farartækjum má ekki aka á akbraut.

Það athugast að tollyfirvöld heimila ekki innflutning hjóla sem falla undir a-lið eða c-lið 30. tölul. nema þau hafi CE-merkingu.

Þess skal getið að lokum að heimild til niðurfellingar virðisaukaskatts við innflutning og skattskyldu vegna sölu nýs rafmagns – eða vetnisbifhjóls, létts bifhjóls sem knúið er rafmagni eða reiðhjóls nær samkvæmt bráðabirgðaákvæði XXVI yfir tímabilið frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2023.

 

Til baka