Breytingar á tollskrá 1. janúar 2017
Þann 1. janúar 2017 taka gildi breytingar á íslensku tollskránni samkvæmt auglýsingu um breyting á viðauka I við tollalög nr. 88/2005 sem Fjármála- og efnahagsráðuneytið gefur út og verða birtar í Stjórnartíðindum.
Breytingar þessar leiða af hinum reglubundnu breytingum sem eiga sér stað á fimm ára fresti samkvæmt samþykkt Alþjóðatollastofnunarinnar á hinni samræmdu alþjóðlegu tollskrá. Tollskráin var tekin upp í alþjóðlegum viðskiptum samkvæmt samningi sem gerður var að frumkvæði ráðsins 14. júní 1983. Samningurinn tók gildi gagnvart samningsaðilum 1. janúar 1988 og var Ísland meðal stofnaðila hans. Eins og áður segir eru gerðar tiltölulega viðamiklar breytingar á tollskránni á fimm ára fresti. Þetta er gert til að laga hana að breyttum aðstæðum í hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi og vegna breyttra áherslna við eftirlit og upplýsingaöflunar samningsríkja.
Breytingarnar eru ekki eins viðamiklar að þessu sinni og oft áður en þó má nefna að einhverjar breytingar eiga sér stað á sjávarafurðakaflanum (3. kafli) þar sem m.a. hausar og annar ætur fiskúrgangur og afurðir fá nú sér númer. Einnig eru breytingar á viðarkaflanum (44. kafli) þegar kemur að flokkun hitabeltisviðar og bambusar. Auk þess má benda á breytingar á bifreiðakaflanum (87. kafli) þar sem flokkun á bifreiðum með rafmagnshreyfli eða hjálparrafmagnshreyfli breytist.
Til þess að auðvelda fyrirtækjum og öðrum sem málið varðar að átta sig á breytingunum verður hér að finna Tollskrá 2017, þar sem breytingar á tollskránni eru litaðar með gulu til að auðvelda leit. Jafnframt er hér listi yfir ný tollskrárnúmer sem tekin eru upp og eins þau sem falla niður svo og umrædd auglýsing fjármálaráðuneytisins.
Gerður hefur verið samsvörunarlykill milli Tollskrár 2012 og Tollskrár 2017 til þess að auðvelda endurflokkun vöru eftir umræddar breytingar.
Sú breyting verður á þetta árið að embætti Tollstjóra mun ekki standa að prentun á tollskránni. Þess í stað verður hún gerð aðgengileg á heimasíðu embættisins þar sem hægt er að hlaða henni niður á PDF formi. Þannig geta þeir sem það vilja prentað hana út, hvort sem er í heilu lagi eða aðeins þeim hluta sem viðkomandi hefur áhuga á að eiga á prenti. Þetta er gert vegna dvínandi áhuga á kaupum á prentuðum eintökum undanfarin ár. T.d. seldist aðeins tæplega helmingur af prentuðu upplagi tollskrár 2012 þrátt fyrir að aldrei hafi verið prentaðar jafn fáar skrár og það árið.
Veftollskrá hefur verið uppfærð en breytingar á henni verða sýnilegar 1. janúar 2017.
- Auglýsing nr. 123/2016 um breyting á viðauka I við tollalög nr. 88 18. maí 2005, með síðari breytingum.
- Tollskrá 2017 (pdf) breytingar eru með gulum lit
- Tollskrá 2017 prentvæn útgáfa
- Ensk útgáfa (er í vinnslu og verður birt á vefnum fljótlega)
- Samsvörunarlyklar, pdf skjal
- Útgáfa 2 - Leiðrétting 17.01.2017: 0305.5912 og 0305.5918 felld út og í staðinn koma 0305.5911 og 0305.5919. - Tollskrárnúmer sem falla niður 2017, pdf skjal
- Útgáfa 2 - Leiðrétting 17.01.2017: 0305.5911 og 0305.5919 falla ekki niður og eru því felld út úr skjali. - Ný tollskrárnúmer 2017, pdf skjal
Sjá einnig frétt Tollstjóra - Breytingar á tollalögum 1. janúar 2017 og gildistaka búvörusamninga
Skjölin eru birt með fyrirvara um villur og gætu tekið breytingum.
Sjá einnig frétt tollstjóra - Breyting á tollskrá, aðflutningsgjöldum og fleira.
Fréttin verður uppfærð með nýjustu breytingum.
Síðast uppfært/breytt 17. janúar 2017
Til baka