Ólögleg lyf haldlögð hér í alþjóðlegri aðgerð

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim
Lyf

Ólögleg lyf haldlögð hér í alþjóðlegri aðgerð

10.06.2016

Fölsuð krabbameinslyf, alnæmislyf, sykursýkispróf og eftirlíkingar af tannlækna- og skurðáhöldum  voru meðal þeirra ólöglegu lyfja og lækningatækja sem gerð voru upptæk í nýafstaðinni alþjóðlegri aðgerð sem náði til 103 landa. Beindist hún að vefverslun þar sem ólögleg og hugsanlega lífshættuleg lyf voru á boðstólum.

Íslenska tollgæslan og Lyfjastofnun tóku þátt í aðgerðinni sem gerð var á vegum Interpol með aðkomu m.a. Alþjóða tollastofnunarinnar og Europol.  Í tengslum við aðgerðina hér á landi var lagt hald á töluvert af ólöglegum stinningarlyfjum. Meðan hún stóð yfir hafði  Matvælastofnun aukið eftirlit með fæðubótarefnum, sem grunur lék á að gætu innihaldið lyfjavirk efni. Nokkur mál af því tagi komu einnig upp.

Tollgæslan og Lyfjastofnun nutu liðsinnis embættis ríkislögreglustjóra og tengslaskrifstofu Íslands hjá Europol við aðgerðina sem unnin var undir heitinu Pangea IX.

Alls voru 393 handteknir víða um lönd og hald lagt á 12. 2 milljónir eininga af ólöglegum og mögulega lífshættulegum lyfjum  að andvirði 53 milljónir dollara. Þá var 4.932 vefsíðum sem buðu upp á slíkan varning lokað. 334.000 pakkar voru rannsakaðir og af þeim voru 170.340 haldlagðir.

Sem dæmi um umsvif ólöglegrar vefverslunar má nefna að í Ungverjalandi fundust 65.000 töflur af  kvíðastillandi lyfjum faldar í aftursæti og varahjólbarða bifreiðar. Í Austurríki var stöðvuð starfsemi neðanjarðarverksmiðju þar sem framleidd voru fölsuð lyf, þar á meðal sterar.


Sjá nánar í frétt á vef interpol

 

Á myndinni má sjá fjölbreytileika þeirra ólöglegu stinningarlyfja sem haldlögð voru hér á landi í alþjóðlegu aðgerðinni Pangea IX.

Haldlögð lyf Pangea IX

 

Til baka