Álagning á lögaðila 2009

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Álagning á lögaðila 2009

30.10.2009

Álagning skatta á lögaðila vegna tekna á árinu 2008 fer fram 30. október 2009.

Hér að neðan eru upplýsingar um hvernig hægt er að létta mánaðarlega greiðslubyrði með gerð greiðsluáætlunar hjá innheimtumanni ríkissjóðs.

Greiðsluerfiðleikar

Eigi lögaðili í erfiðleikum með að greiða álagninguna á lögboðnum gjalddögum er hægt að gera greiðsluáætlun hjá innheimtumanni ríkissjóðs. Þá er greiðslunum dreift yfir lengra tímabil sem hefur í för með sér aukinn vaxtakostnað en léttari mánaðarlega greiðslubyrði.

Áætlanir skattstjóra

Innheimtuaðgerðir eru þær sömu hvort sem skattur er lagður á samkvæmt framtali eða áætlaður. Ef um áætlun skattstjóra er að ræða er mikilvægt að skila inn framtölum til að fá skattálagningu leiðrétta. Hafi það verið gert er hægt að miða innheimtu skatta við bráðabirgðaútreikning, en leggja þarf fram staðfestingu á því að framtali hafi verið skilað. Staðfesting á skilum á framtali getur verið móttökukvittun og bráðabirgðaútreikningur á álagningunni sem hægt er að prenta út þegar framtali er skilað í gegnum þjónustusíðu á vef Ríkisskattstjóra. Einnig er hægt að fá staðfest afrit af framtalinu á skattstofunni eða með því að prenta það út af þjónustusíðu Ríkisskattstjóra.

Þar sem álagning skatta er skilin frá innheimtunni hafa Tollstjóri og aðrir innheimtumenn ríkissjóðs ekki upplýsingar um skattkærur og fyrirhugaðar leiðréttingar. Það er því áríðandi fyrir skattgreiðanda að láta Tollstjóra/viðeigandi innheimtumann ríkissjóð vita af slíku tilviki og ganga frá greiðsluáætlun.

Geri hann það ekki hefjast innheimtuaðgerðir sem hafa í för með sér óafturkræfan kostnað og óþægindi.

Í öllum tilvikum borgar það sig að hafa samband við Tollstjóra eða viðeigandi innheimtumann sem fyrst ef upp koma greiðsluerfiðleikar. Með álagningarseðlinum er sendur innheimtuseðill og á honum kemur fram hvaða innheimtumaður ríkissjóðs er með álagninguna til innheimtu.

Þjónustufulltrúar lögfræðideildar innheimtusviðs Tollstjóra eru staðsettir á 4. hæð Tollhússins, Tryggvagötu 19 og til viðtals á opnunartíma embættisins, frá kl. 08:00-15:30.

Álagningarseðlar og aðrar upplýsingar um álagningu skatta er hægt að nálgast á vefnum www.skattur.is

Til baka