Tilkynning nr. 7/2004 til inn- og útflytjenda

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tilkynning nr. 7/2004 til inn- og útflytjenda

10.12.2004

Reglugerð um niðurfellingu eða endurgreiðslu tolls fyrir matvælaiðnað Reglugerð um vörugjald af ökutækjum Reglugerðir um úthlutun á tollkvótum Reglugerð um formsatriði við skýrslugjöf að því er varðar skip sem koma í og/eða láta úr höfn í ríkjum Evrópska efnahagsvæðisins Auglýsing um framlengingu banns vegna fuglaflensu Reglugerð um gerð og búnað ökutækja Reglugerð um innflutning gæludýra og hundasæðis Reglugerð um breytingu á reglugerð um snyrtivörur Reglugerð um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla

 

Eftirfarandi breytingar urðu á framangreindum lögum og reglugerðum:

I. Reglugerð um niðurfellingu eða endurgreiðslu tolls fyrir matvælaiðnað nr. 881/2003 Breytt með reglugerð nr. 433/2004 Tók gildi 19. maí 2004

Með breytingunni hafa skilyrði fyrir niðurfellingu eða endurgreiðslu tolls skv. ákvæðinu breyst á þann hátt að landbúnaðarhráefnið sem notað er skal ætlað aðilum sem ,, Starfrækja matvælavinnslu í atvinnuskyni, þó ekki veitingarekstur, mötuneyti, kjöt- eða fiskborð matvælaverslana,’’ sbr. a-liður 2. tl. 2. gr. reglugerðarinnar.

Ákvæði 3. gr. reglugerðarinnar breytist þannig að fyrirsögnin verður "Fyrirvari" í stað undantekningar sem áður var og ákvæðið verður svohljóðandi:

,,Hafi undanþága frá greiðslu tolls af innfluttum landbúnaðarhráefnum, sem ekki eru upprunaefni samkvæmt bókun 4 við EES-samninginn, verið veitt skv. 1. gr. geta fullunnu vörurnar ekki notið tollfríðinda við innflutning þeirra til EES-ríkja. Sami fyrirvari gildir vegna hliðstæðra ákvæða í stofnsamningi EFTA og öðrum fríverslunarsamningum sem Ísland á aðild að.’’

II. Reglugerð um vörugjald af ökutækjum nr. 331/2000 Breytt með reglugerð nr. 658/2004 Tók gildi 10. ágúst 2004

Breyting varð á 4. gr. reglugerðarinnar, þess efnis að 3. og 4. töluliðir verða að einum þ.e. 3. tl. og breytist númeraröð annarra töluliða samkvæmt því. Breyting verður á orðalagi ákvæðisins og röðun í stafliði. Einnig bætist við í h-lið ,, Fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki eldri en 40 ára.’’ Með breytingunni verður eitt vörugjald 13% á þá hluti sem taldir eru upp í ákvæðinu í stað 15 % og 20 % samkvæmt eldri ákvæðum.

Verður 3. tölul. svohljóðandi, eftir breytinguna: 13% vörugjald:

  • a. Kranabifreiðar og borkranabifreiðar sem eru 5 tonn eða minna að leyfðri heildarþyngd.
  • b. Grindur með hreyfli fyrir vélknúin ökutæki.
  • . Yfirbyggingar, þar með talin ökumannshús fyrir vélknúin ökutæki.
  • d. Tengivagnar og festivagnar til vöruflutninga sem eru 5 tonn eða minna að leyfðri heildarþyngd, aðrir tengi- og festivagnar.
  • e. Dráttarbifreiðar fyrir festivagna sem aðallega eru gerðar til að draga annað ökutæki, að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
  • f. Ökutæki sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
  • g. Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, gálgabifreiðar o.fl., sem ekki eru aðallega hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum og ekki eru tilgreind annars staðar í þessari grein, að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
  • h. Fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki 40 ára og eldri.

Einnig verður breyting á 7. tl. 19. gr. sem lækkar vörugjald af bifreiðum til líkflutninga úr 30% í :

10% fyrir bifreiðar í gjaldflokki I 13% fyrir bifreiðar í gjaldflokki II

III. Reglugerðir um úthlutun á tollkvótum

  • Reglugerð um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á nautgripa-, svína-, alifulga og hreindýrakjöti nr. 403/2004
  • Reglugerð um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á grænmeti nr. 791/2004
  • Reglugerð nr. 929/2004 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á hvalaafurðum og rjúpum
  • Reglugerð nr. 930/2004 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á soðnum eggjum og eggjarauðum
  • Reglugerð nr. 931/2004 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á ostum frá Noregi
  • Reglugerð nr. 932/2004 um tollkvóta á grænmeti og niðurfellingu tolla
  • Reglugerð nr. 933/2004 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á frjóeggjum og mysudufti
  • Reglugerð nr. 934/2004 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á blómum, trjám o.fl.

IV. Reglugerð um formsatriði við skýrslugjöf að því er varðar skip sem koma í og/eða láta úr höfn í ríkjum Evrópska efnahagsvæðisins nr. 869/2004reglugerð nr. 869/2004 Tók gildi 1. desember 2004

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/6EB frá 18. febrúar 2002 með áorðnum breytingum. Skilgreind eru hugtök sem snúa að skýrslugjöf við komu fars til landsins og í viðaukum eru sýnishorn af stöðlum og skýrslum til slíkrar skýrslugerðar. Snýr þetta að tollgæsluaðilum og öðrum þeim sem hafa með landamæragæslu að gera.

Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.

V. Fuglaflensa Auglýsing nr. 688/2004 Tók gildi 23. ágúst og gildir til 15. desember 2004

Um framlengingu banns við innflutning frá Kína Tælandi, Suður-Kóreu, Víetnam, Japan Kambódíu, Indónesíu Laos, Pakistan, Hong Kong vegna Avian Influensu eða fuglaflensu.

Með auglýsingu þessari er lengt bann við innflutningi til landsins á lifandi fuglum, frjóeggjum og hráum afurðum alifugla frá ofangreidnum löndum. Gerð var grein fyrir þessu banni í tilkynningu tollstjóra nr. 1 og 2 /2004.

VI. Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 reglugerð nr. 822/2004 Tók gildi 14. október 2004 Fellir úr gildi reglugerð nr. 308/2003, sama efnis

Í fyrstu grein eru skilgreiningar á hinum ýmsu gerðum ökutækja sem eru leiðbeinandi og gætu komið til skoðunar við tollafgreiðslu. Reglugerðin gildir um öll ökutæki sem eru nýskráð eða tekin í notkun fyrsta sinn hér á landi eftir 1. janúar 2005.

Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.

VII. Reglugerð nr. 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis Tók gildi 24. nóvember 2004 Felldi úr gildi reglugerð nr. 431/2003 sama efnis Innflutningsleyfi sem veitt hafa verið skv. eldri reglugerð halda gildi sínu

Innflutningur á gæludýrum og hundasæði er óheimill nema að fengnu leyfi landbúnaðarráðherra og uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar. Innflytjandi skal sjá til þess að þau vottorð sem krafist er fylgi dýrinu/hundasæðinu við innflutning og ber hann allan kostnað af sóttvarnarráðstöfunum og öflun vottorða.

Einungis er heimilt að flytja inn gæludýr og hundasæði til Íslands um innflutningsstað eins og hann er skilgreindur í reglugerðinni. Innflutningur á gæludýrum og hundasæði með skipum er óheimill.

Nánar er fjallað um innflutning hunda, katta, hundasæðis, skrautfiska og vatnadýra, nagdýra auk kanína og búrfugla í reglugerðinni. Leggja ber fram heilbrigðis- og upprunavottorð við innflutning framangreindra lífvera.

Óheimilt er að flytja til landsins:

  • Hvolpafullar tíkur.
  • Kettlingafullar læður.
  • Tíkur með hvolpa á spena.
  • Læður með kettlinga á spena.
  • Dýr sem hafa undirgengist aðgerðir fyrir innflutning og þarfnast eftirlits eða eftirmeðferðar af nokkru tagi.
  • Hunda og sæði hunda af eftirfarandi tegundum, svo og blendinga af þeim:
    • 1. Pit Bull Terrier/Staffordshire Bull Terrier.
    • 2. Fila Brasileiro.
    • 3. Toso Inu.
    • 4. Dogo Argentino.
    • 5. Aðrar hundategundir eða blendinga, skv. ákvörðun landbúnaðarráðherra í hverju tilfelli, að fenginni rökstuddri umsögn yfirdýralæknis.
  • Blendinga af úlfum og hundum, svo og sæði blendinga af úlfum og hundum.

Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.

VIII. Reglugerð nr. 870/2004 um breytingu á reglugerð um snyrtivörur Tók gildi 10. nóvember 2004 Breyting á reglugerð nr. 748/2003

Óheimilt er að framleiða, flytja inn, selja eða dreifa snyrtivörum sem innihalda efni sem flokkast sem Carc 1 eða 2, Rep 1 eða 2, Mut 1 eða 2 og fá varnaðarmerkin sterkt eitur (Tx) eða eitur (T) samkvæmt reglugerð um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda, sem innihalda slík efni.

Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.

IX. Reglugerð nr. 842/2004 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla Tók gildi 29. október 2004 Breyting á reglugerð nr. 522/1994

Með breytingunni var skipt út lista í viðauka 10, yfir leyfilega fyrri farma.

Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.

Reykjavík, 10. desember 2004

Tollstjórinn í Reykjavík

Til baka