Tilkynning nr. 6/2004 til inn- og útflytjenda

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tilkynning nr. 6/2004 til inn- og útflytjenda

30.11.2004

Fríverslunarsamningur EFTA ríkjanna við Chile
Breyting á gjöldum af áfengi og tóbaki

 

 

Fríverslunarsamningur EFTA ríkjanna við Chile
Þann 1. desember 2004 tekur gildi nýr fríverslunarsamningur EFTA ríkjanna við Chile. Samningurinn veitir fulla fríverslun með allar sjávarafurðir frá gildistöku hans og jafnframt fríverslun með iðnaðarvörur frá sama tíma við innflutning til Íslands.

Samhliða fríverslunarsamningnum gerði Ísland samning um landbúnaðarmál beint við Chile og fær sá samningur gildi á sama tíma.

Athygli er vakin á að ekki þurfa að gilda sömu fríðindi við innflutning til Íslands frá Chile og gilda við útflutning frá Íslandi til Chile.

Samninginn sjálfan má sjá á heimasíðu Utanríkisráðuneytisins.

Þar sem tilkynning um staðfestingu á gildistöku samningsins barst embættinu ekki fyrr en 26. nóvember 2004 getur hann ekki tekið gildi í Tollakerfi, tölvukerfi tollafgreiðslu hjá tollstjórum, fyrr en 10. desember nk. Þeir aðilar sem tollafgreiða frá 1. til 9. desember 2004 vörur sem eiga að njóta umræddra tollfríðinda og uppfylla öll skilyrði geta átt rétt á endurgreiðslu aðflutningsgjalda að einhverju leyti.

Í aðflutningsskýrslu, fremst í reit 33 í vörulínum skýrslu, skal óska eftir tollmeðferð skv. samningum við Chile með því að skrá U í tegund tolls. Landalykil Chile er CL.  Upprunasönnun skal vera EUR upprunavottorð eða EUR yfirlýsing á vörureikningi.

Breyting á gjöldum af áfengi og tóbaki
Þann 30. nóvember 2004, tóku gildi lög nr. 118/2004, um breytingu á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum. Breytingarnar eru eftirfarandi:

1.gr.
Breyting verður á 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. laganna
3. Af öðru áfengi 70,78 kr. ( þ.e. áfengi sem er sterkara en 15 %), var áður 66,15 kr. VZ gjald verður því 70,78 kr frá og með 30. nóvember 2004.

2.gr.
Breyting verður á 2. mgr. 9. gr. laganna
Fjárhæð tóbaksgjalds skv. 1. mgr. skal vera sem hér segir:
1.  Vindlingar: [228,46 kr.] á hvern pakka (20 stk.).
2.  Neftóbak: [2,70 kr.] á hvert gramm eða hluta úr grammi vöru.
3.  Annað tóbak: [8,17 kr.] á hvert gramm eða hluta úr grammi vöru.

Ofangreind tóbaksgjöld eru innheimt af ÁTVR.

3.gr.
Breyting verður á 1. mgr. 10. gr. laganna
1.  Vindlingar: [286,97 kr.] á hvern pakka (20 stk.). Var áður 268,20.
2.  Annað tóbak: [14,34 kr.] á hvert gramm eða hluta úr grammi vöru. Var áður 13,40.
Frá og með 30. nóvember 2004 verður því T1 gjald 286,97 kr. og T2 gjald 14,34 kr.

 

Reykjavík, 30. nóvember 2004

Tollstjórinn í Reykjavík

Til baka