Rautt eða grænt hlið
Það borgar sig að fara í rauða hliðið og greiða lögbundin aðflutningsgjöld ef þú hefur keypt vörur sem kosta meira en sem nemur tollfríðindum (í dag 88000). Skoðaðu dæmið hér að neðan:
Þú kaupir fartölvu erlendis sem kostar $799 = 105212 (gengi USD=131,68) og kemur með hana heim sem ferðamaður. Sömu reglur gilda um allar verslunarvörur, en gjöld á þeim geta verið mismunandi fartölva er hér aðeins tekin sem dæmi.
Þú ferð í rauða hliðið |
Þú ferð í græna hliðið |
---|---|
Tollverð vörunnar + aðflutningsgjöld | Tollverð vörunnar + aðflutningsgjöld + sekt |
109405 |
159988 |
Skoðaðu hvernig þetta er reiknað út:
Í rauða hliðinu getur þú nýtt tollfríðindi sem þú átt rétt á sem ferðamaður.
Hvernig eru tollfríðindi reiknuð?
Með því að draga tollfríðindi frá kaupverði getur þú notað reiknivélina til að reikna um það bil hvað vara muni kosta ef þú kaupir hana erlendis og kemur með hana til landsins sem ferðamaður.
Dæmi (miðað við gengi, gjöld og tollfríðindi 27. febrúar 2015):
Lýsing | Upphæð |
---|---|
Fartölva kostar erlendis USD 799 * 131,68 (tollverð * gengi) | 105212 |
Þú dregur tollfríðindi frá | - 88000 |
Sláðu töluna sem út kemur í reiknivélina og veldu réttan flokk: | 17212 |
Reiknuð aðflutningsgjöld samkvæmt reiknivél | 4193 |
Fartölvan kostar þig því samtals 105212 + 4193 (kaupverð + aðflutningsgjöld) | 109405 |
Þegar þú kemur heim ferðu í "rauða hliðið" með vöruna sem þú keyptir ásamt reikningi og greiðir aðflutningsgjöldin.
Þó hámark tollfríðinda sé 88000 krónur er ekkert því til fyrirstöðu að versla fyrir hærri upphæð erlendis, en þá má ekki gleyma að fara í rauða hliðið þegar heim kemur og greiða lögbundin aðflutningsgjöld.
Hjá ferðamönnum er flutningskostnaður ekki reiknaður, hinsvegar þurfa áhafnir skipa og flugvéla að reikna með flutningskostnaði.
Þegar ferðast er með dýrar vörur er gott að hafa meðferðis reikning til að geta sýnt fram á verðmæti þeirra.
Síðast uppfært/breytt febrúar 2015
Hvað gerist í græna hliðinu ef ég er með varning umfram verðmætismörk?
Farir þú í gegnum "græna hliðið" með varning meðferðis sem er að verðmæti meira en reglur um tollfríðindi segja til um, þá telst það vera smygl og brot á tollalögum.
Dæmi (miðað við gengi, gjöld og tollfríðindi 27. feb 2015):
Lýsing | Upphæð (ISK) |
---|---|
Fartölva kostar erlendis USD 799 * 131,68 (tollverð * gengi) | 105212 |
Reiknuð aðflutningsgjöld (notaðu reiknivélina til að reikna þau) | 25477 |
Sekt ef um brot er að ræða 25477 * 1,15 (aðflutningsgjöld með 15% álagi) | 29299 |
Fartölvan kostar þig því samtals (105212 + 25477 + 29299) | 159988 |
- Þú þarft að greiða aðflutningsgjöld og að auki sekt sem er aðflutningsgjöld með 15% álagi
- Þú lendir á sakaskrá ef fjárhæð sektar við tollalagabroti þínu nemur hærri upphæð en 50000 kr.
- Varningurinn er haldlagður af tollgæslu og er í vörslu hennar þar til gjöld og sekt hafa verið greidd
- Tollalagabrot í grænu hliði getur varðað upptöku varnings
- Auk greiðslu sektar þá er öll bannvara gerð upptæk, en einnig getur komið til upptöku almenns verslunarvarnings ef ætla má að hann sé til endursölu og eins ef viðkomandi er farmaður eða flugliði
Síðast uppfært/breytt febrúar 2015